DeFi skammtímalán
Eru þessi lán gjöf eða gjald?

Jæja, eftir ágætt sumar eru fríin að taka sér enda og sólin byrjuð að ná niður fyrir sjóndeildarhringinn á næturnar. 🌅
Um daginn lenti ég í áhugaverðu spjalli um lán á rafmyntamörkuðum, en hugmyndin um að geta tekið lán úr samansöfnuðum sjóði fólks án þess að fara í gegnum neitt mennskan millilið er vægast sagt ótrúleg. Ég nota Compound Finance mikið sem dæmi i þessu blaði en ég vil minna á það að ég mæli ekki með að neinn fjárfesti upphæð sem má ekki glatast í rafmyntir (ekki hella úr neinum sparnaðarreikning!), þó ég tali vel um Compound Finance hef ég t.d. aldrei fjárfest meira en bara nokkrum þúsundköllum í þá til að sjá hvernig hlutir fara fram.
- Snær
Síðan fyrstu bankar heimsins voru stofnaðir hafa þeir í gegnum tíðina ávallt verið álitnir sem hornsteinar starfandi hagkerfa. Hlutverk þeirra eru mörg, en í grunninn er þeirra helsti tilgangur að taka við fjármagni frá þeim sem það eiga og lána það áfram til þeirra sem þess þarfnast.
Þetta gera þeir af sjálfsögðu ekki að kostnaðarlausu, en þeir sem lána bankanum þéna vexti á upphæðina sem lánuð er og bankinn sömuleiðis þénar þegar hann lánar fjármagnið áfram (með ennþá hærri vöxtum). Þetta er gríðarleg einföldun á einu af mörgum hlutverkum bankakerfisins.
⏲️ Skammtímalán
Til eru margar tegundir af lánum, en í dag ætla ég að einbeita mér að skammtímalánum– þú veist, þaðan sem allar draugasögurnar koma.

Þó ég mæli nú ekki með því að taka skammtímalán, leynast þar oft tækifæri fyrir sparifjáreigendur sem eru í leit af öruggri fjárfestingu. Hjá mörgum skammtímaláns þjónustum kemur peningurinn sem nýttur er til útláns frá svokölluðum ‘lausafjársjóðum’ (e. liquidity pools), en algengt er að þessir lausafjársjóðir eru opnir fyrir utanaðkomandi fjárfesta sem vilja þéna tiltölulega örugga ávöxtun. Gallinn er þó sá að ávöxtunin er í flestum tilfellum– líkt og áhættan– lítil sem engin.
Compound Finance
Margir hafa reynt að innleiða þessa aðferð inn í web3 heiminn. Eitt gott dæmi um slíka tilraun er hugmynd þeirra Robert Leshner og Geoffrey Hayes: Compound Finance.

Compound Finance Logo
Með því að nota svokallaðan Automated Market Maker eða AMM tókst þeim hjá Compound Finance að hanna þjónustu sem gerir fólki kleift að taka lán– eða lána eigið fjármagn– með sanngjörnum vöxtum án þess að fara í gegnum neinn mennskan millilið.
Í stuttu máli er AMM samansafn eigna þar sem reiknirit ákvarðar vextina sjálfkrafa þegar upphæð úr safninu er lánuð áfram. Þetta gerir það að verkum að ekki sé þörf að semja við einn né neinn um skilyrði lánanna. Reikniritið býður einfaldlega upp á sanngjarnan díl með því að ákvarða vexti út frá framboði og eftirspurn umræddrar eignar– án nokkurs hængs.
📹 Fyrir þá sem vilja vita meira um það hvernig Automated Market Maker virkar þá mæli ég með þessu myndbandi hér.
Compound Finance notaði upprunalega miðstýrt módel þar sem eigendurnir tveir réðu ríkjum. Í dag hafa þeir hins vegar gefið út svokallaðan stýritóka (e. governance token) sem gerir það að verkum að valdinu er dreift á milli eigendur tókans, þ.e., því fleiri tóka sem einstaklingur á, því meira vægi er atkvæði hans þegar kosið er um breytingar innan fyrirtækisins (vægi atkvæða þeirra sem eiga 100 stýritóka er tvöfalt meira en þeirra sem eiga einungis 50, o.s.frv). Tókinn hjá Compound Finance heitir COMP, en í kjölfar sköpun hans er Compound Finance nú orðið decentralized autonomous organization, eða svokallað DAO, sem stýrt er af samfélaginu.
🗳️ DAO
Í stuttu máli eru DAO félög sem ekki eru stýrð af ráðnum einstaklingum heldur þeim sem eiga stærsta hluta stýritóka félagsins. Oftast er þessi tóki einfaldlega seldur eins og hver önnur rafeign og fólk hvatt til að kaupa með því loforði að hægt verði að selja þá fyrir upphæð hærri en þeirri upprunalegu (síðan eru af sjálfsögðu þau sem safna þeim til að hafa áhrif á stefnu félagsins). Í dag má einnig finna DAO sem ekki eru stýrð með stýritókum, en það er efni fyrir annað blað.

Því fleiri stýritóka sem einstaklingur á, því ólíklegra er að sá einstaklingur er til í að glata þeim. Þetta gerir það að verkum að sá sami sé líklegri til að passa að félagið taki engar slæmar ákvarðanir. Vandamálið við þessa hugmyndafræði er þó að hún byggist upp á þeirri trú að þau sem mestan pening eiga séu þau sömu og þau vita hvað er best fyrir félagið– og við vitum nú flest að heimurinn er ekki alveg svo einfaldur.
📹 Hér er síðan myndband fyrir þá sem vilja læra meira um DAO.
🤔 Tekst Compound Finance að bjóða upp á betri lánaþjónustu en bankar nútímans?
Í rauninni er svarið við þessu bæði já og nei.
🤑 Aukin hagkvæmni
Þegar þú lánar Compound Finance rafmyntirnar þínar geturðu átt von á því að ávöxtunin verði töluvert betri en hjá bönkum hérlendis.
Fram að enda ársins 2021 tókst Compound Finance að viðhalda að meðaltali 35% raunávöxtun, en samkvæmt bókinni Hlutabréf á heimsmarkaði eftir Sigurð B. Stefánsson og Svandísi R. Ríkarðsdóttur er raunávöxtun skuldabréfa í Evrópuríkjum einungis 1.2% ef reiknað er frá aldamótunum 1900 til ársins 2019 (Skuldabréf er skuldaviðurkenning þess efnis að útgefandi bréfsins lofar því að greiða eiganda bréfsins einhverja ákveðna upphæð á tilteknum tíma með þeim vaxtakjörum sem bréfið tilgreinir).
Þar sem rafmyntamarkaðurinn er þó talsvert yngri er ekki hægt að tryggja að þetta haldist svona um komandi tíma. Bitcoin hefur t.d. valdið meira tekjutapi en gróða hjá þeim hópi sem fjárfest hafa í því (þ.e. ef við tökum alla þá sem keypt hafa bitcoin og reiknum út hvert hlutfall þeirra sem græddu er), en þar er meðaltal gróðans 1576% árlega ef við teljum frá árinu 2010– sem er vægast sagt blekkjandi.
🔒 “Collateral”
Hjá Compound Finance er nauðsynlegt að veðsetja rafræna eign að sömu sort og þá sem verið er að lána. Ef einhver myndi til dæmis vilja taka lán í ETH myndi Compound Finance reikniritið kanna hversu stórt hlutfall þyrfti að veðsetja til að fá upphæðina sem verið er að biðja um. Ef það er t.d. verið að taka lán fyrir 1 ETH og hlutfallið reiknast sem 75%, þá þarf sá einstaklingur að veðsetja 0.75 ETH svo að lánið verði samþykkt o.s.frv.
Helsti gallinn við þessar veðsetningar er að þær hindra fólk sem ætlar að stunda áhættu miklar fjárfestingar, en það er fremur erfitt þegar maður getur einungis tekið lán fyrir upphæð 25% hærri en sú sem maður þarf að veðsetja.
Fyrir þá áhættupésa sem vilja stunda áhættumeiri fjárfestingar á rafmyntamarkaði þá mæli ég með því að þeir kynni sér Quantfury. Bara ekki benda á mig ef/þegar þú endar í lífstíðarskuld!!!
Þegar á stóru myndina er litið er ljóst að Compound Finance sé með verulega spennandi verkefni í höndunum sem gæti haft gríðarleg áhrif á viðskiptavenjur fólks á rafmyntamarkaðinum. Stóra spurningin er þó hvort þeim takist að halda sér á floti í þessum vilta markaði eða hvort þessi spennandi 35% ávöxtun sé bara fylgifiskur góðæranna undanfarin ár.
Hvað fannst þér um tölvupóstinn í dag?
Með athugasemdum þínum getum við bætt newsletter-ið. Smelltu á tjáknin til að kjósa: