🤔 Er Bitcoin gjaldmiðill?
Spurningin sem er á vörum allra, hvað er Bitcoin?

👋 Heil og sæl,
Ég var víst næstur í kóvid 🦠 röðinni og sit nú heima í einangrun að skrifa þennan póst.
Í dag langaði mig að fjalla svolítið um Bitcoin og hvað það er í raun og veru. Fólki finnst oft erfitt að skilgreina hvað Bitcoin er; hvort það sé gjaldmiðill, eign, “raf-gull” eða eitthvað annað.
Í rauninni er það sitt eigið fyrirbæri og það væri rangt að reyna að flokka það í einhvern flokk sem er nú þegar til. Rafmynt er bara rafmynt.
- Snær
1. Hvernig varð Bitcoin til? ₿
Satoshi Nakamoto er dulnefni yfir aðilann eða hópinn sem hannaði og þróaði rafmyntina Bitcoin. Nakamoto kom fyrst til sögu árið 2007, en samkvæmt honum var það þá þegar forritun Bitcoins hófst. Tveimur árum seinna, 2009 þann 9. janúar gaf hann síðan út fyrstu útgáfu Bitcoin-hugbúnaðarins á vefþjónustunni SourceForge.
Hann hélt áfram að þróa kóðann fyrir Bitcoin fram að 12. desember 2010, en ekkert hefur heyrst til hans síðan.
Lengi hefur verið deilt um það hvað Bitcoin er í raun og veru. Þó að hugtakið raf*mynt* gefur í skyn að Bitcoin sé gjaldmiðill, er það ekki svo ljóst þegar málið er kannað nánar.
(Héðan í frá verður 'Bitcoin' skrifað með stórum staf þegar það er verið að tala um fyrirbærið sem heild, en með litlum ef ég er að tala um bitcoin einingu.)
2. Er Bitcoin gjaldmiðill? 🤔
Margir sérfræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hvort Bitcoin geti nokkurn tímann orðið að viðurkenndum gjaldmiðli. Í akademískum bókmenntum er talað um að gjaldmiðill þurfi að uppfylla þrjú skilyrði:
💱 Skiptimiðill (e. medium of exchange)
Gjaldmiðillinn þarf að vera hæfur skiptimiðill. Ef ekki er hægt að nýta gjaldmiðil í að borga niður lán, kaupa vöru eða þjónustu eða til að þjóna öðrum fjárhagslegum skyldum er ekki hægt að skilgreina hann sem hluta virkandi greiðslukerfis.
Ekki er nauðsynlegt að hægt sé að nota gjaldmiðilinn alþjóðlega, en aftur á móti ætti hann að vera fullkomlega nothæfur í því umhverfi sem hann var hannaður fyrir, þ.e. ef tiltekin vara er seld fyrir evrur er mikilvægt að einnig sé hægt að nota evrur til að kaupa hana.
📈 Stöðugt verð (e. store of value)
Gjaldmiðillinn þarf að vera stöðugur. Það þarf að vera hægt að treysta því að virði gjaldmiðilsins haldist í gegnum komandi tíma (ekki er skilgreint hve langur sá tiltekni tími er). Ef maður kaupir einhverja ákveðna vöru eða þjónustu með gjaldmiðlinum er mikilvægt að geta treyst því að sama vara eða þjónusta fáist á sama– eða allavega mjög svipuðu verði.
Þegar virði gjaldmiðils flöktir of mikið getur það ollið ofsaverðbólgu. Í kjölfarið hættir fólk að treysta gjaldmiðlinum og greiðslukerfið hrynur. Fólk finnur sér þá frekar aðrar leiðir til að ákvarða virði, en þannig verða oft til ýmsar nýjar aðferðir til að öðlast þær vörur og þjónustur sem þörf er á í samfélaginu.
💸Reikniseining (e. unit of account)
Gjaldmiðill þarf að vera nothæf mælieining til að skrá verð, tekjur, eignir og skuldir. Ef ekki er hægt að reikna út virði eigna sinna með gjaldmiðlinum (Dæmi: ‘Ég á milljón króna virði af fötum’) er gjaldmiðillinn ekki nothæfur í flestum viðskiptum.
Prófum núna að bera Bitcoin saman við þessi skilyrði og sjáum hvernig gengur:

💱 Skiptimiðill
Bitcoin er fyrsta verðmæta rafræna eignin sem hægt er að færa frá einum stað til annars án þess að nauðsynlegt sé að fara í gegnum einhverja sérstaka þjónustu (‘verðmæt’ í því samhengi að hún sé jafn mikils virði í höndum eins og hún yrði í höndum annarra). Þetta bendir til þess að hægt væri að nota bitcoin sem skiptimiðil, en hvernig hefur það gengið hjá þeim fyrirtækjum sem hafa reynt það?
Mörg fyrirtæki hafa í gegnum tíðina sagst taka á móti bitcoin sem greiðsluleið, en vegna óstöðugleika bitcoin neyddust þau til að þróa með sér sérstaka aðferð til að fara að því.
Í raun eru þau fyrirtæki sem hafa verið að taka við bitcoin að miða við verð dollarans á þeim tímapunkti sem færslan á sér stað (dollarinn er algengastur, en aðrir gjaldmiðlar eru einnig notaðir). Þáverandi virði Bitcoin hefur þannig í raun engin áhrif á þau viðskipti sem eiga sér stað.
Þessi aðferð er notuð af öllum þeim vefsíðum sem ég fann við rannsóknina fyrir þessi skrif; t.d. á Microsoft, AT&T, Norwegian Air, Travala og meira að segja PornHub (ég var einungis þar vísindanna vegna augljóslega)!
Margar heimasíður hafa jafnvel gengið svo langt að þau uppfæra verðin sín á 30 sekúndna fresti vegna óstöðugleikans!
Það er hins vegar ekki hægt að tala um Bitcoin sem gjaldmiðil án þess að minnast á El Salvador, en í stað þess að troða því inn í þetta blað vil ég að það fái sitt eigið sviðsljós seinna meir.
Niðurstaðan er þessi: Þó að bitcoin virkar nokkurn veginn eins og skiptimiðill, býr hann ekki yfir nægilegu jafnvægi til að vera traustsins virði.
📈Stöðugt verð
Þessu er fremur fljótlega svarað. Verð Bitcoins er ekki stöðugt og sveiflurnar geta verið gífurlega óreglulegar.

Ég held að það sé því sanngjarnt að fullyrða að fólk sé ekki líklegt til að vilja geyma aleigu sína í Bitcoin eins og staðan hefur verið undanfarið…
💸Reikningseining
Bitcoin er alveg vonlaus reikningseining. 😔 Ef meta ætti virði eigna einhvers tiltekins einstaklings væri það gríðarlega áhættusamt að ætla sér að gera það í bitcoin. Það yrði engin leið til að vita hvort virðið myndi hækka eða lækka við komandi tíma.
Niðurstaða
Samkvæmt þessum skilyrðum er það ljóst að ekki sé hægt að flokka Bitcoin sem gjaldmiðil; það er einfaldlega allt of óstöðugt.
3. En hvað er þá Bitcoin? 💡
Í raun er Bitcoin mikið nær því að vera ‘raf-eign’ frekar en ‘raf-mynt’ og hefur meira að segja verið skilgreint sem slíkt af Amerísku CEA samtökunum (Commodity Exchange Act).
En þó að Bitcoin sé skilgreint sem nokkurs konar rafræn hrávara þýðir það EKKI að hún sé einhvers konar ‘stafrænt gull’ eins og maður heyrir sífellt í umræðum í dag. Bitcoin fjárfestingum fylgir enn MIKIL áhætta og í raun er ekkert sem bendir til þess að verðsveiflurnar munu minnka í framtíðinni.
Bitcoin er heillandi og tæknin sem fylgir mun trúlega ávallt verða hluti af nettækni og fjármálum í framtíðinni. En passa þarf að ganga hægt um gleðinnar dyr og kynna sér tæknina vel áður en maður myndar sér sína eigin skoðun og byrjar að fjárfesta.
🙌 Ég vona að ég hafi náð að koma því sem ég vildi til skila á skýran hátt og hvet alla til að senda inn athugasemd að lestri loknum.
Kær kveðja,
Snær & Bálka teymið
Hvað fannst þér um tölvupóstinn í dag?
Með athugasemdum þínum getum við bætt lesturinn. Smelltu á emoji til að gefa blaðinu dóm: