💶 Monerium Deep Dive
Við hjá Bálka tókum viðtal við tvo úr teymi Monerium og fræddum okkur um starfsemi, tilgang, og sögu þeirra. Ég verð að viðurkenna að það var einstaklega hressandi að geta spurt spurninga beint í stað þess að leita uppi upplýsinga í skrifuðum heimildum.
Ég naut mín mjög og þakka Monerium innilega fyrir ánægjulegt spjall.
- Snær
Þegar það kemur að íslenskum Web3 fyrirtækjum birtist Monerium mér efst í huga, en sá hópur snillinga tókst það sem engum öðrum hafði áður tekist; að gefa út rafeyri á bálkakeðju.
Ekki nógu grípandi? Leyfið mér að útskýra:
🏦 Brotaforðakerfið
Útlán banka í dag eru fjármögnuð með rafrænum peningum sem búnir eru til í formi innlána gegn afhendingu skuldaviðurkenninga. “Rafpeningarnir” eru síðan geymdir á rafrænum bankareikningum sem svokölluð “viðskiptabankamynt”, en tölurnar sem mæta manni inn á heimabanka er eitt gott dæmi um slíkt. Viðskiptabankamynt er þess vegna ekki peningur sem maður á, heldur peningur sem bankinn skuldar manni.
Þetta kerfi er kallað brotaforðakerfið og byggist upp á miðlægum gagnagrunni sem krefst þess að viðskiptabankaskuld sé umbreytt frá skuld eins banka yfir í annars í hvert skipti sem viðskiptabankamynt er færð á milli einstaklinga hjá sitthvorum bankanum.
Í stuttu máli: Við sendum ekki eignir á milli, við breytum því hvaða banki skuldar hverjum hversu mikið.
Í brotaforðakerfinu fellst ákveðin áhætta, en þó að bönkum sé nú langflestum treystandi fyrir þessu hlutverki eru til dæmi víða um heiminn þar sem fólk fékk eignir sínar ekki til baka þegar viðskiptabanki fór á hausinn.
Markmiðið mitt er nú ekki að fá fólk til að hætta að treysta bönkum, en hérna er myndband sem fer yfir nokkur dæmi um hvernig bankar geta verið óöruggir:
ATH: Þetta myndband er aðallega um Bandaríkin og margt sem kemur þar fram á því ekki við um Ísland.
Síðan er að sjálfsögðu til venjuleg seðlabankamynt, en henni fylgir alls ekki sama áhættan. Hún er gefin út í formi seðla og peninga og stólar ekki á velgengni einkarekinnar fjármálastofnunar. Eða eins og Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður Monerium orðaði það:
“Seðlar eru seðlabankamynt og er áhættulaus þar sem seðlabankinn getur, lögum samkvæmt, ætið búið til seðla til að standa við skuldbindingarnar sínar.”
(Tekið úr Bálkakeðjur á miðvikudögum: Er seðlabankamynt á bálkakeðjum góð hugmynd? Mæli eindregið með að hlusta á þennan fyrirlestur, hann fjallar um mikið af því sem ég er að skrifa um í þessu blaði.)
Rafeyri er ekki það sama og rafmynt. Þetta vil ég hafa alveg á hreinu áður en lengra er haldið. Rafeyri er innleysanlegt fyrir hefðbundna þjóðargjaldmiðla, en rafmynt eru myntir eins og Ethereum og Bitcoin.
Í samstarfi við
Bari hefur það meginmarkmið að bjóða upp á íslenska hönnun þar sem textíll og gæði skipta höfuðmáli. Bari stendur fyrir tímalausa hönnun og endingargóð efni innblásin af baðmenningu Íslands. Hönnun Bari sækir í hafið í kringum Ísland, vötn landsins og gróður. Bari er tilvalinn eftir baðið, sturtuna, heitapottinn, sjósundið eða einfaldlega sem heimagalli. Markmið Bari er að ýta undir slökun, núvitund, endurnæringu og vellíðan.
🎙️ Við tókum viðtal við Árna Guðjónsson, yfir hugbúnaðarverkfræðing, og Jón Gunnar Ólafsson, lögfræðing Monerium
🤝 Hvernig fóruði að því að hljóta leyfi til útgáfu rafeyris?
Árni lýsir ferlinu sem fólst í því að fá leyfi til að gefa út valdboðsgjaldmiðla á bálkakeðju sem áhugaverðu, en þar sem þetta var fyrirspurn ólík öllum sem fjármálaeftirlitið (FME) hefur fengið í gegnum tíðina bjuggust þeir við að þetta myndi taka mikið lengri tíma en það á endanum gerði.
"Við fundun hjá fjármálaeftirlitinu fengum við góðar móttökur, öll voru þau mjög opin og lausnarmiðuð. Samtals tók tvö ár að útskýra þetta; hvað við værum að gera, hvað blockchain er og allt það. Það var ekkert endilega verið að drífa sig, heldur sýndu þau áhuga og vildu skilja þetta.” Leyfið var gefið þann 12. júní 2019, en síðan þá hefur Monerium einbeitt sér að því að bæta þjónustuna og auka notagildi rafeyrisins.
💶 Er rafeyri það sama og stöðugleikamynt (e. stablecoin)?
Stöðugleikamyntir (e. stablecoin) kallast það þegar verð rafmynta er bundið eða tengt við verð þjóðargjaldmiðils. Markmið þeirra er að gera fólki kleift að geyma fjármagn á bálkakeðjum án þess að hafa áhyggjur á rýrnun.
Kaupferli rafmynta í dag fer oftast fram í gegnum kauphallir, en þá eru evrur færðar frá eigin bankareikningi yfir í reikning kauphallarinnar (nema þegar kredit kort er notað). Í staðinn er úthlutuð inneign sem hægt er að nota innan kauphallarinnar við kaup á rafmyntum og annars konar rafeignum. Stöðugleikamyntir koma þar sterkar til leiks. Þær gera fjárfestum kleift að halda pening inni í kerfinu án þess að hann verði fyrir áhrifum sveiflna rafmyntamarkaðarins. Hins vegar getur oft reynst erfitt að treysta stöðugleikamyntum þar sem erfitt er að staðfesta að verið sé tryggja verð hennar.
TerraUSD er gott dæmi um stöðugleikamynt sem ekki var hægt að treysta, en í maí 2022 féll stöðugleikamyntin frá $1 niður í um $0.05:
"Þetta fyrirkomulag [stöðugleikamynta] er nú kannski í lagi fyrir einstaklingsnotkun en gengur hins vegar ekki fyrir fyrirtæki sem krefjast bókhalds– þá þarf alltaf að vera peningur á bak við þetta”, segir Árni.
Þar sem rafeyri Monerium er ekki einungis tryggður, heldur viðurkenndur sem jafngengt form þjóðargjaldmiðils af Seðlabanka Íslands gerir það rafeyrinn að einni traustustu gerð íslensku krónunnar til þessa. Helsti munurinn á stöðugleikamynt og rafeyri er því sá að rafeyri er hægt að geyma án áhyggja og tæknilega séð borgað skatta; þetta er einfaldlega rafrænn peningur, viðurkenndur af ríkinu. Jafnframt má benda á að í reglugerð sem samþykkt hefur verið af Evrópusambandinu, “Markets in Crypto Assets“ eða “MiCA“, er gerð sú krafa að útgefendur rafmynta sem ætlað er að spegla verðgildi evru eða annarra þjóðargjaldmiðla hafi hlotið starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki eða sem banki. Rétt er að benda á að áætlað er að reglugerðin taki gildi á fyrsta ársfjórðungi 2024.
💸 Hvernig er hægt að nota rafeyri?
Jón segir, “Það getur verið fremur erfitt að útskýra hvað það er sem við gerum fyrir [meðal] Íslendinginn. Neytenda viðmót bankakerfisins í dag eru öll frekar ‘tipp topp’ og bankaöppin virka einstaklega vel; það er mjög auðvelt að senda pening á milli og færslan kemur strax [í heimabankann], en sagan er önnur þegar farið er til dæmis til Bandaríkjanna.”
Árni bætir síðan við, “Ég bjó í Noregi í 10 ár og þurfti oft að senda pening á milli landamæra. Þetta gat tekið þrjá daga og kostaði ákveðið mikið.”
En til að svara spurningunni útskýrir Jón að “allar eignir verða að einhverju leiti til í þessu [sniði] í framtíðinni. Við höfum verið í sambandi við fullt af fyrirtækjum erlendis sem eru að pæla í ‘tokenization’; fyrirtæki sem eru að táknvæða eða skapa tákn sem endurspegla verðgildi einhvers konar eignar, þetta getur verið hlutabréf, skuldabréf, fasteign, og svo framvegis.”
Lagabreytingar hafa átt sér stað í fjölmörgum löndum sem gera margt af þessu mögulegt í dag, en ljóst er að mikil spenna og áhugi er fyrir þessum nýja vettvangi viðskipta. Jón bendir einnig á að lítill áhugi er á rafmyntum (e. cryptocurrency) þessa daganna vegna núverandi markaðsaðstæðna, en ekki má rugla þessum tveimur sviðum saman þar sem hér er um þjóðargjaldmiðla að ræða, ekki hundamyndir.
“Í framtíðarmynd okkar munu allar eignir sem verið er að selja og kaupa í dag, hvort sem það eru gjaldeyrisviðskipti eða kaup á verðbréfum, færast yfir á þetta form.”
Það var margt áhugavert sem kom upp í samtalinu á milli okkar, Árna og Jóns, en til að koma í veg fyrir að þetta Bálkablað yrði að klukkutíma lestri, gat ég einungis skrifað um brot þess efnis sem rætt var um.
Ef þið, kæru lesendur, viljið fá að vita meira um starfsemi og sögu Monerium getiði látið mig vita með því að gefa blaðinu dóm og/eða skrifað ummæli hér að neðan.
Hvað fannst þér um pistilinn í dag?Með athugasemdum þínum getum við bætt pistilinn. Smelltu á hlekkinn til að senda okkur skilaboð: |