🔐 Passið upp á rafmyntirnar ykkar!
Ekki enda eins og James Howells!!!

Góðan og blessaðan daginn,
Langt hefur liðið síðan ég skrifaði fyrir Bálka seinast, en loksins ákvað ég að setjast aftur niður til að skrifa.
Ég vil þakka fyrir allar spurningarnar sem við höfum fengið sendar, ég ætla að reyna að svara sem flestum í komandi greinum.
- Snær
🔐 Passið upp á rafmyntirnar ykkar!
Frá upphafi rafmynta hafa sprottið upp mörg dæmi um einstaklinga sem tapað hafa aðgangi að sínum eigin. Eitt slíkt atvik átti sér stað árið 2013 þegar maður að nafninu James Howells var að fara í gegnum troðna skrifborðsskúffu. Þar hafði hann fundið tvo harða diska; einn tóman og annan frá gamalli Dell tölvu sem hann hafði átt.
Það var ekki fyrr en að harði diskurinn var kominn á hauganna þegar hann áttaði sig á því að disknum sem hafði verið fleygt var ekki sá tómi– James hafði óvart fleygt disknum úr Dell tölvunni…
James Howells var einn af þeim fyrstu til að stunda Bitcoin námugröft, en honum hafði tekist að safna 8.000 bitcoin áður en hann hætti– bitcoin að andvirði u.þ.b. 168.000.000 ISK á þeim tíma sem hann áttaði sig á klúðrinu (dollarinn var u.þ.b. 120kr þá), en 41.302.815.000 ISK í dag– og hvar geymdi hann rafmyntirnar spyrðu?– Í Dell tölvunni.
🎙️ Hérna er viðtal við James Howells á BBC stuttu eftir atvikið.

Hérna er mynd af honum James Howells
👛 Hvernig er best að geyma rafmyntir?
Til að forðast þess að gera sömu mistök og James er mikilvægt að velja góðan geymslumáta fyrir rafmyntirnar sínar. Það fer eftir ýmsu hvaða mátar henta hverjum og einum, en í dag eru valkostirnir nokkrir talsins.
Geymslumátum rafmynta, eða svokölluðum crypto-veskjum er hægt að skipta í tvo flokka:
🔥 Heit veski (e. hot wallet)
Heit veski eru rafræn veski sem þú getur nálgast í tölvu eða snjallsíma í gegnum netið. Þau gera manni kleift að færa rafmyntirnar sínar auðveldlega á milli kauphalla.
🧊 Köld veski (e. cold wallet)
Köld veski eru hins vegar ekki nettengd og það er því ekki hægt að brjótast inn í þau í gegnum netið. Þó það kunni að hljóma mjög vel, verður eigandi slíks veskis einnig að hafa í huga að ef veskið skyldi týnast eða skemmast er engin leið til að nálgast rafmyntirnar aftur.
Auðvelt er að koma með sterk rök fyrir báðum valkostunum, en það er í raun bara persónuleg skoðun hvers og eins sem mestu skiptir.
Persónulega nota ég kalt veski sem heitir Ledger Nano S. Það hefur persónulega reynst mér mjög vel en undanfarnar vikur hefur notkun þess verið umdeild umræða svo ég hvet hvern og einn að lesa sér til um öll helstu veskin sem eru í boði og ákveða þannig sjálf hvað hentar hverjum og einum.
Hér er listi yfir nokkur crypto-veski sem eru í boði í dag (valin eftir vinsældum, ekki gæðum þar sem ég hef ekki reynslu á þeim öllum). ÉG ER EKKI AÐ MÆLA MEÐ NEINU ÞEIRRA, EINUNGIS AÐ SEGJA FRÁ ÞEIM:
Coinbase Wallet (heitt):
Ledger Nano X (kalt):
Electrum wallet (heitt):
Mycelium wallet (heitt):
Exodus wallet (heitt):
🤔 En hvað er það sem er í raun verið að geyma?
Fyrst og fremst vil ég vara alla þá sem taka íslenskunni alvarlega við; mikið af hugtökunum sem ég fjalla um í þessari grein hafa enga, eða allavega enga góða, íslenska þýðingu. Svo til þeirra sem fannst íslenskan mín slæm áður; spennið beltin.
Neðst í greininni er listi af orðum sem vanta góðar þýðingar á íslensku. Ég hvet alla orðasmiði til að senda mér þær þýðingar sem ykkur finnst hljóma best í athugasemda-rammann við lok lestursins. Ef þær hljóma vel, er ég líklegur til að nota þær héðan í frá. En aftur að máli málanna:
📬 Asymmetric encryption
Rafmyntir nota ósamhverfa dulkóðun (e. asymmetric encryption) svo ekki sé hægt að eyða sömu rafmyntinni á tveimur stöðum í einu. Ósamhverf dulkóðun virkar í raun eins og læstur póstkassi; allir sem vita staðsetningu póstkassans geta sett bréf í hann, en enginn getur tekið bréfin út nema sá sem er með lykilinn.
Í rafmyntum eiga þessi viðskipti sér oftast stað á rafrænum vettvangi, en þá er talað um svokallað ‘lyklapar’. Ég ætla að halda áfram að nota póstkassann sem dæmi:
🔑 Key's
Opinber lykill (e. public key) kallast sá lykill sem gefur staðsetningu póstkassans og gerir öðrum kleift að senda alls kyns skjöl í hann. Einkalykillinn (e. private key) er sá sem eigandi póstkassans geymir og notar til að opna póstkassann. Sá sem á einkalykilinn hefur fullt vald yfir innihaldi póstkassans.
🏠 Address
Þegar maður sendir Bitcoin í annarra manna veski, sendir maður það í gegnum svokallaða "crypto-addressu" (e. address) sem búin er til með opinberum lykli. Þegar rafmyntin er send í gegnum addressuna endar hún í crypto-veski einstaklingsins sem verið er að senda til. Í crypto-veskinu er síðan einkalykillinn sem veitir eiganda veskisins fullt vald yfir rafmyntunum.
Með öllum smáatriðum er ferlið að sjálfsögðu mikið flóknara, en ég ætla að halda þessu eins einföldu og ég get.
😰 Hvað gerist ef maður glatar aðganginum sínum?

Þegar rafmyntir eru geymdar á síðum eins og eToro eða Coinbase er það í rauninni ekki einstaklingurinn sjálfur sem er að geyma rafmyntirnar, heldur eru þjónusturnar að því. Í þessum tilfellum er því oft hægt að bjarga málunum með því að einfaldlega fara í gegnum hið hefðbundna ferli sem fylgir þegar einstaklingur gleymir aðgangsorði sínu. Þetta á ekki við þegar rafmyntirnar eru geymdar í crypto-veskjum.
Í nær öllum tilfellum er ekki nein leið til að nálgast rafmyntir einstaklings aftur ef einkalykli veskis er týnt eða gleymt. Ég legg því gríðarlega mikla áherslu á mikilvægi þess að geyma einkalykla á eins öruggum stað hægt er.
Ekki enda eins og James Howells. 🙃
Orðalisti
Hvað fannst þér um tölvupóstinn í dag?
Með athugasemdum þínum getum við bætt newsletter-ið. Smelltu á emoj-in til að kjósa: