🌐 Valdboðsgjaldmiðlar, Rafmyntir og DeFi
Sæll kæri lesandi og vertu velkominn í hópinn!

Það getur verið ógnvekjandi fyrir marga að byrja að læra um Web3 og allar þær tækninýjungar sem þar með fylgja, en með því að taka eitt skref í einu er maður fljótur að átta sig á því að þetta sé ekki eins flókið og maður upprunalega taldi.
Margir hlutar Web3 tækninnar er eitthvað sem maður hefur nú þegar séð eða heyrt, en hugmyndirnar hafa flestar hringsólað í samfélaginu í marga áratugi; hvort sem það hafi verið í formi vísindaskáldskaps eða fræðirita.
Hugtakið Web3 er í raun regnhlífarhugtak yfir þær tækninýjungar sem fylgja þessari nýju internet byltingu og felur í sér bálkakeðjur, rafmyntir, NFTs, o.fl.
Markmiðið okkar hjá Bálka er að gera það auðvelt að skilja hvað er í gangi í þessum tæknivædda heimi með því að taka saman allar þær helstu upplýsingar sem hinn meðal einstaklingur þarf á að halda. Þannig auðveldum við læri ferlið og upplýsum lesendur um fjölmargar leiðir til að taka þátt í þessum nýja tækniheimi.
1.Hver er vandinn við valdboðsgjaldmiðla? 🤔
Til að útskýra þörfina á Web3 er mikilvægt að kasta ljósi á nokkurra þeirra vandamála sem hið núverandi kerfi ber í skauti sér. En flest þeirra tengjast því hvernig núverandi gjaldmiðlum er dreift og stjórnað.
Valdboðsgjaldmiðlar (e. fiat currency) er verðeining sem fyrirskipuð er af ríkisvöldum án nokkurra raka eða tryggða um virði hennar. Nánast allir gjaldmiðlar sem nú eru í umferð falla undir þennan flokk, en langur tími hefur liðið síðan hætt var að gulltryggja peningaseðla. Virði valdboðsgjaldmiðla er einfaldlega fylgibreyta fjölda eintaka þess sem hægt er að nálgast í samfélaginu. Með öðrum orðum: ef mikill peningur er prentaður er auðvelt að nálgast hann og virði hans því minnkar– og öfugt.
Ríkisstjórnir geta prentað eins mikið magn af valdboðsgjaldmiðlum og þeim sýnist. Þó að markmið prentunarinnar er oftast að ná jafnvægi á hækkun neysluvísitölu hagkerfisins getur það þó valdið gríðarlegri verðbólgu eins og mátti t.d. sjá í kjölfar hrunsins 2008.
Það voru þó að vísu fjölmargar aðrar breytur í spili þegar hrunið átti sér stað, en hérna er stutt og góð samantekt eftir Pétur Martein Urbancic Tómasson í hlaðvarpinu Núllið fyrir þá sem vilja vita meira um hrunið 2008 á auðskilnu nútímamáli.
Í árslok 2008 var peningamagn 113% landsframleiðslu, en til að jafnvægi náðist taldi Seðlabanki Íslands það vera nauðsynlegt að koma hlutfallinu niður í u.þ.b. 60-70%. Árið 2013 hafði tekist að lækka peningamagnið niður í 93% af landsframleiðslu, en það þýddi að brenna þyrfti u.þ.b. 400-500 milljarða í verðbólgu ef ekki yrði fundið betri lausn.

Í heimi rafmyntanna er þessi ofprentun hins vegar fyrirbæri sem hægt er að eyða út, en t.d. er ekki hægt að ‘prenta’ fleiri Bitcoin heldur er það magn sem ákveðið var við forritun rafmyntarinnar óbreytanleg. Þetta er einn af mörgum þáttum sem benda til þess að rafmyntir eru í raun æðri valdboðsgjaldmiðlum.
2. Hvernig leysa rafmyntir vandamál valdboðsgjaldmiðla? 💡
Rafmyntir geta leyst mikinn fjölda af vandamálum valdboðsgjaldmiðla þegar litið er til lengri tíma, en hérna eru tvö helstu atriðin:
💸 Það verður auðveldara að nálgast eigin pening.
Valdboðsgjaldmiðlar í nútímalegu samfélagi eru oftast geymdir í formi gagna inn á rafrænum bankareikningum. Fólk getur síðan farið inn á bankareikninginn sinn í gegnum vefsíðu eða smáforrit bankans sem það er hjá og sent skipanir um millifærslur eða kaup á vörum og þjónustum. Bankinn er þannig milliliður allra færslna sem eiga sér stað og hefur þar með fullan rétt til að hafna öllum þeim skipunum sem berast frá einstaklingum. Bankinn hefur valdið. 🏦
Rafmyntir eru hins vegar alltaf eign manns sjálfs. Það er enginn milliliður og engin stofnun sem geymir rafmyntirnar þínar nema þegar sérstaklega er kosið að fara þá leið. Rafmyntir manns geymast á reikniritum sem kallast ‘bálkakeðjur’ (e. blockchain) sem enginn getur breytt eða stjórnað (neðar er fjallað nánar um bálkakeðjur). Þú hefur valdið.
Færslugjöld á bálkakeðjum kallast ‘gas fees’ og reiknast út frá álaginu sem liggur á bálkakeðjunni. Ef eftirspurnin er mikil, hækka færslugjöldin og dýrara verður að stunda viðskipti á bálkakeðjunni.
Þetta fyrirkomulag, þegar litið er til lengri tíma, getur leitt til ódýrari færslugjalda, lána og þjónustugjalda eftir því sem tölvutæknin þróast.
Það þarf samt að hafa í huga að staðan er ekki svo góð í dag, en vegna tölvuaflsins og rafmagnsins sem uppihald kerfisins krefst eru neytendur að upplifa ein dýrustu færslugjöld allra tíma í heimi rafmyntanna. Þetta á sérstaklega við um Ethereum (ETH); bálkakeðjan sem hefur flest notagildi eins og er þökk sé svokölluðum ‘snjallsamningum’ (e. smart contracts). Við munum fjalla nánar um Ethereum síðar. Hér er hægt að lesa nánar um færslugjöld bálkakeðjanna (e. gas fees).
🔒 Meira öryggi
Þökk sé tækninni sem felst í bálkakeðjum eru rafmyntir mikið öruggari gjaldmiðill heldur en hinir hefðbundnu valdboðsgjaldmiðlar sem stóla á núverandi kreditkorta kerfi bankanna– kerfi þar sem öryggisbrot eru allt of algeng.
Öryggisbrot kreditkorta er viðfangsefni sem lítið er fjallað um hér á Íslandi, en í t.d. Ameríku er það orðið svo stórt vandamál að það hefur áhrif á tugi milljóna manns árlega. Ef þú verslar mikið á Amerískum vefsíðum er því mjög líklegt að kortaupplýsingarnar þínar eru nú þegar komnar í hendur einhvers annars þarna úti. Hér er stutt yfirlit af helstu öryggisbrotum 2021.
Hugmyndin um bálkakeðjur var upprunalega fundin upp árið 1991, en tæknin var almennt vanmetin þangað til árið 2009 þegar Satoshi Nakamoto bjó til Bitcoin. En hvað er bálkakeðja?
🔗 Í stuttu máli virkar bálkakeðja eins og turn búinn til úr legókubbum; hver kubbur hefur fjóra bita að ofan svo hægt sé að festa annan legókubb ofan á hann og holu að neðan svo einnig sé hægt að festa kubbinn sjálfan við annan. Munurinn er þó að í bálkakeðjum eru ‘bitarnir’ flókinn öryggisbúnaður sem getur einungis fests við ‘holu’ sem hefur lykilinn að öryggisbúnaðinum.

Þetta gerir það að verkum að það er nær ómögulegt að hakka sig inn í færslu innan bálkakeðju. Maður þyrfti ekki einungis að hafa lykilinn á færslunni sem verið er að hakka, heldur einnig öryggiskóðanna af öllum þeim færslum sem komu bæði á undan og eftir. Það er vegna þess að, líkt og í legóturni, er ekki hægt að taka færslur úr turninum miðjum (eða ‘keðjunni’ í þessu tilfelli) án þess að fyrst taka allar þær sem á undan henni koma.
En það er einnig nær ómögulegt þar sem færslurnar geta verið mörg hundruð þúsund á dag.

BTC Network
📹 Hérna er örstutt myndband sem útskýrir þetta á mjög einfaldan og þægilegan hátt.
3. Dreifstýrð fjármál (e. DeFi) 🌐
Dreifstýrð fjármál eiga svo sannarlega sinn eigin kafla skilið, en með því að fjarlægjast hinu hefðbundna miðstýrða fjármálakerfi opnast fyrir nær óteljandi nýrra möguleika.
Áður en við fjöllum um hvaða afleiðingar dreifstýrð fjármál geta borið með í skauti sér er mikilvægt að skilja hvað þau eru (í grófum dráttum að minnsta kosti):
DeFi stendur fyrir ‘decentralized finance’ eða dreifstýrð fjármál á íslensku og þýðir í raun að það er enginn einn aðili sem stjórnar fjármálakerfinu. Valdinu er dreift á milli allra þeirra sem nýta sér kerfið, en þetta er mögulegt með því að skapa nær óbreytanleg skilyrði við sköpun kerfisins sem tryggja að tilgangi þess haldist. Það er enginn einn aðili sem ræður.
Þó að hugmyndin um rafmyntir er rekjanleg til Wei Dai, sem skrifaði um hana árið 1998, var Satoshi Nakamoto sá allra fyrsti til að skapa slíkt fyrirbæri. Með því að nýta sér tækni bálkakeðja fann hann lausn sem gerði honum kleift að skapa Bitcoin; sem er enn þá í dag stærsta rafmynt allra tíma.
Markmið Satoshi var að búa til rafrænan gjaldmiðil sem fólk virkilega ætti og þyrfti þar með ekki hjálp frá bönkum eða öðrum þjónustum ef það vildi færa peninginn sinn frá einum stað til annars. Margir telja að markmiðið Satoshi hafi staðið af traustleysi hans í garð fjármálageirans í kjölfar alþjóðlegu efnahagskreppunnar sem átti sér stað sumarið 2007. Ekkert er það þó vitað fyrir víst þar sem enginn veit hver Satoshi Nakamoto er í raun og veru og ekkert hefur heyrt til hans síðan árið 2011.
₿ Hver sem er getur átt Bitcoin; fyrirbærið er í eigu allra sem kjósa að taka þátt í því.
Með dreifstýrðum fjármálum er valdinu komið í hendur almenningsins sem kemur í veg fyrir að stjórnvöld geti notað pening sem tól til harðstjórnar eða annarra ósanngjarnra aðgerða.
Þessu fylgir þó ótalmargar áhættur, en með dreifstýringu hagkerfa er auðveldara að fremja glæpi á við peningaþvott og skattsvik þar sem peningafærslur geta haldist algjörlega nafnlausar.

Stjórnvöld fjalla mikið um glæpastarfsemi þar notkun rafmynta spilar mikið inn í og notfæra sér hana sem rök gegn upptöku rafmynta. Töluleg gögn benda þó til þess að magn rafmynta sem notað er í ólöglegum tilgangi er einungis örlítið hlutfall af þeim færslum sem eiga sér stað, eða aðeins 0.34% (þetta mældist árið 2020, en hlutfallið fer sí lækkandi) af öllum færslum rafmynta, en þetta vegur í kringum 10 milljarða dollara á ári.
Þá er fyrsta newsletter Bálka komið í loftið, við þökkum innilega fyrir góð viðbrögð og vonum að lesturinn hafi verið ánægulegur.
Kær kveðja,
Bálka teymið
Ps. Ef einhverjar spurningar vakna, endilega hafið þá samband með því að ýta á reply hnappinn. 😉
Hvað fannst þér um tölvupóstinn í dag?
Með athugasemdum þínum getum við bætt newsletter-ið. Smelltu á emoj-in til að kjósa: