🕸️ Web 1.0 vs Web 2.0 vs Web 3.0

Góðan daginn!
Mér datt í hug að snöggvast útskýra aðeins hugtökin Web 1.0, 2.0 og 3.0 og gera greinamun á milli þeirra. Í dag fer Web 3.0 umræðan sífellt stækkandi en ég sé sjaldan útskýrt hvað hugtakið þýðir í raun og veru. Ég vona að þetta hjálpi einhverjum að skilja muninn á þessu öllu.
🌐 Defense Advanced Research Project Agency (DARPA)
DARPA, sem þá var þekkt sem ARPA, lagði grunninn að interneti nútímans, árið 1969, þegar ákveðið var að þróa tækni sem veitti þráðlausan aðgang að tölvukerfum. Það er ennþá deilt um það í dag hver ástæðan fyrir sköpun tækninnar var nákvæmlega (ein helsta samsæriskenningin er t.d. sú að það hafi verið hannað til að geta varið gögn gegn kjarnorkustríði) en víðast er þó samþykkt að það hafi verið vegna þess að einungis örfáar tölvur voru til í Ameríku sem gátu unnið úr einstaklega flóknum gögnum á þessum tíma, en það flýtti þróun rannsókna gríðarlega þegar vísindamenn um land allt höfðu aðgang að slíkum ofurtölvum. Þetta kerfi var síðan skýrt “ARPANET”.

Fyrsti router BBN Technologies, sem ruddi brautina fyrir ARPANET einu ári síðar.
Web 1.0
Web 1.0 er fyrsta “útgáfa” internetsins og varð til tveimur áratugum seinna, hins vegar eru ekki allir sammála um nákvæma dagsetningu og er því talað um árið 1989, þegar Tim Berners-Lee ætlaði sér að skapa kerfi fyrir fyrirtækið CERN sem gerði vísindamönnum kleift að dreifa gögnum á milli sín sama hvar þeir voru staddir í heiminum– eins og ARPANET gerði, nema á stærri skala.
Á þessum tíma var internetið samsett af vefsíðum sem notuðu HTTP-staðal (Hypertext Transfer Protocol) sem gerði það að verkum að hægt var að tengja þær saman með svokölluðum “hyperlinks”, en hyperlinks eru einfaldlega hlekkir sem hægt er að smella á til að fara yfir á aðra vefsíðu. Dæmi um slíka hlekki eru t.d. öll bláu orðin í þessu Bálkablaði.
Hið fullkomna dæmi um hvernig fyrstu vefsíður internetsins litu út er hægt að finna hér. en þetta er bókstaflega fyrsta vefsíða internetsins sem gerð var af Tim Berners-Lee sjálfum árið 1991.
Web 1.0 er það sem kallað er “the read-only web” eða “vefurinn sem er einungis hægt að lesa” 📖 og eins og nafnið gefur nú fremur sterklega til kynna var einungis hægt að lesa gögn af vefsíðunum en ekki var hægt að hlaða upp gögnum á netþjóna nema í gegnum tölvuna sem hýsti vefsíðuna.
Með þessu módeli gæti maður t.d. lesið fréttir á Vísi.is án þess að týna sér í kommentakerfinu á meðal fáfróðra facebook notenda.

Virkir á kommentakerfinu
Web 2.0
Web 2.0 er sú “útgáfa” internetsins sem við könnumst við og notum í dag.
Enn og aftur er fólk ekki sammála um það hvenær þessi “útgáfa” tók við nákvæmlega en hugtakið sjálft var tekið í notkun árið 2004.
Helsta breytingin sem átti sér stað í Web 2.0 er að allar tölvur sem tengdar eru við netið geta nú hlaðið upp gögnum á aðrar vefsíður og þjónustur. Við þetta urðu t.d. samfélagsmiðlar til, en eins og við vitum flest hafa áhrif þeirra verið gríðarleg á m.a. samskiptahegðun okkar og danshæfileika ungra krakka. 💃
Það var ekki fyrr en við útgáfu Web 2.0 sem að auglýsingar voru leyfðar á veraldarvefnum og einkavædd fyrirtæki áttuðu sig loksins á tækifærunum sem hér leyndust, en ekki leið langur tími þar til mörg þúsundir fyrirtækja nýttu sér vettvanginn til auglýsinga.

Í dag erum við algjörlega að drukkna í auglýsingum, en ég fann hér eitt æðislegt en ýkt dæmi um það hvernig vefsíðu upplifunin er í dag.
Web 3.0
Loks er komið að Web 3.0, en hér er fólk enn og aftur ósammála um það hvenær þessi nýja gerð internetsins byrjaði. Sumar heimildir vilja meina að hún hafi byrjað snemma árið 2006 en aðrar 2014. Einnig má bera rök fyrir því að Web 3.0 sé ekki byrjað yfir höfuð þar sem hlutfall fólksins sem notar þessar tækninýjungar er enn einungis brotabrot af notendum internetsins sem heild.
Í grunninn hefur hugmyndafræði Web 3.0 hingað til verið byggð á því markmiði að útrýma milliliðum í sem flestum samskiptum sem eiga sér stað í gegnum internetið. Við viljum t.d. geta geymt okkar eigin fjármuni á öruggan máta og jafnframt fært fjármuni á milli staða án þess að þurfa að borga himinháan aukakostnað, en þökk sé bálkakeðjum þá er þetta, og fleira, nú loksins mögulegt.

https://medium.com/cardstack/making-web-3-0-usable-part-1-e4351003a478
Dreifstýring er stórt þema í Web 3.0, en með því að forðast miðlæga starfsemi er hægt að auka öryggi þjónusta gríðarlega.
Fyrir þá sem ekki vita þá er dreifstýring (e. decentralization) í stuttu máli þegar valdi félags eða fyrirtækis er dreift á milli marga aðila í stað þess að stóla á eina miðlæga stjórnstöð. Í Web 3.0 samhengi þýðir það að ekki er verið að notast á við einhvern einn sérstakan netþjón (e. server) til að halda kerfinu starfandi heldur eru það margar tölvur sem hjálpast að við það. Það gerir það að verkum að ekki yrði nóg að hakka sig inn í eina tölvu til að taka niður kerfið, heldur þyrfti maður að hakka sig inn í meiri hluta þeirra tölva sem halda því uppi.
Þetta var svona stutt yfirlit yfir þessar svokölluðu internet kynslóðir eða ‘web generations’. Ég fór nú ekkert voðalega djúpt í hverja og eina kynslóð fyrir sig en ég vona að þú hafir lært eitthvað nýtt eða að minnsta kosti notið lestursins. Það verður forvitnilegt að sjá hvert Web 3.0 mun leiða okkur í framtíðinni.
Hvað fannst þér um tölvupóstinn í dag?
Með athugasemdum þínum getum við bætt newsletter-ið. Smelltu á emoj-in til að kjósa: